Höfum oft unnið í Mosfellsbæ

Ásbjörn ræðir við mbl.is í kvöld.
Ásbjörn ræðir við mbl.is í kvöld. mbl.is/Óttar

Reynsluboltinn Ásbjörn Friðriksson lék vel fyrir FH í kvöld þrátt fyrir að liðið hafi tapað fyrir Aftureldingu í fyrsta leik úrslitaeinvígis liðanna á Íslandsmóti karla í handbolta í kvöld.

FH náði sex marka forskoti í fyrri hálfleik, en var aðeins einu marki yfir í hálfleik. Afturelding var svo yfir stóran hluta seinni hálfleiks.

„Þeir fara að spila betri vörn, við klikkum á sóknum og þeir byrja að skora. Þetta jafnast full fljótt. Þetta var bara eitt mark í hálfleik eftir að þeir skora í lok fyrri hálfleiks.

Þetta eru hlutir sem við þurfum að skoða. Við þurfum að lagfæra þetta og mæta ákveðnari og harðari í næsta leik. Við erum klaufar síðustu tíu mínúturnar, þá nýtum við ekki færin. Kukobat kemur inn og tekur 3-4 dauðafæri síðustu 10 mínúturnar og það gerði okkur erfitt fyrir,“ sagði Ásbjörn um leikinn við mbl.is.

Aron Pálmarsson var ekki með FH í kvöld vegna meiðsla og er óvíst hvort hann verði með í næsta leik í Mosfellsbæ á miðvikudag.

„Ég veit ekki stöðuna á honum. Hvort sem hann er með eða ekki þá getum við betur á báðum endum vallarins. Það verður að koma í ljós hvernig það þróast. Við hinir hugsum um okkur á meðan og hann verður klár eins fljótt og hann getur.

Vonandi eru fullt af FH-ingum sem hafa trú á því að við séum að fara að vinna í Mosfellsbæ á miðvikudag. Við höfum oft unnið í Mosfellsbæ. Við þurfum að hugsa um að spila betri leik, ekki hvar leikurinn fer fram,“ sagði Ásbjörn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert