Ísland leiðir kynbótasýningar

Kynbótahrossin áttu allan gærdaginn á heimsmeistaramóti íslenska hestsins í Hollandi. Sérstaka athygli vakti tían sem Kormákur frá Lipperthof fékk fyrir tölt í flokki 5 vetra stóðhesta. Þórður Þorgeirsson sýndi Kormák fyrir Þýskaland en þetta er ekki í fyrsta sinn sem hann nær að sýna hest upp á tíu á tölti. Kormákur er sem stendur annar með heildar einkunnina 8,19.

Efstur er Fránn frá Vestri-Leirárgörðum sem sýndur er af Erlingi Erlingssyni fyrir Ísland. Fránn átti mjög góða sýningu þrátt fyrir að lækka örlítið frá því hann var sýndur síðast á Gaddstaðaflötum í sumar. Fránn er með í einkunn 8,30 og lækkaði því örlítið eða úr 8,35.

Margir spenntir fyrir Garra

Beðið var með mikilli eftirvæntingu eftir Garra frá Reykjavík sem er hæst dæmdi stóðhesturinn í dag með einkunnina 8,77. Garri sem sýndur var af Jóhanni Skúlasyni fyrir Ísland var ekki að sýna sínu allra bestu hliðar og lækkaði nokkuð og fékk í heildareinkunn 8,61. Samt sem áður er Garri efstur í flokki stóðhesta 7 vetra og eldri og eru ekki taldar miklar líkur á því að einhver nái að jafna um hann úr þessu.

Þessi gríðarlega fallegi gæðingur á efalaust eftir að taka vel á því á yfirliti og hækka sig aðeins. Annar í þessum sama flokki er Stari frá Bredhall sýndur af Johan Häggberg fyrir Svíþjóð með einkunnina 8,39.

Í flokki 6 vetra stóðhesta er það Dalvar frá Auðsholtshjáleigu, sem er með hæstu einkunnina sem stendur. Dalvar er sýndur af Erlingi Erlingssyni fyrir Ísland og fékk hann einkunnina 8,63, þar af er hann með 8,80 fyrir hæfileika en var áður með 8,77. Hart á hæla Dalvars kemur svo Naskur frá Oed með aðaleinkunn upp á 8,57. Naskur er sýndur fyrir Þýskaland af Þórði Þorgeirssyni.

Hæst dæmda hryssa dagsins var Urður frá Gunnarsholti með einkunnina 8,54. Urðu er sýnd af Þórði Þorgeirssyni fyrir Ísland í flokki hryssa 7 vetra og eldri. Urður hækkaði sig fyrir hæfileika úr 8,42 í 8,54 en að sama skapi lækkaði byggingadómur hennar úr 8,57 í 8,53.

Eini flokkurinn þar sem ísland leiðir ekki er í flokki 6 vetra hryssa. Broka frá Wiesenhof leiðir þar með einkunnina 8,27 og er því að hækka sig nokkuð eða úr 8,19. Hækkar hún fyrir hæfileika úr 8,24 í 8,42 en lækkar örlítið í byggingu úr 8,13 í 8,05. Broka er sýnd af Jolly Schrenk fyrir Þýskaland.

6 vetra hryssur jafnar en lágar

Mjótt er á munum milli þriggja efstu hryssa í flokki 6 vetra hryssa og hafa þær allar lækkað frá forskoðun. Efst er Finna frá Feti með einkunnina 8,17 en hún lækkaði mjög mikið eða úr 8,52. Finna er sýnd af Ævari Erni Guðjónssyni fyrir Ísland. Hrísla frá Skáneylandi er með næst hæstu einkunnina eða 8,15. Hrísla lækkaði úr 8,42 en hún er sýnd af Johan Häggberg fyrir Svíþjóð. Þar á eftir kemur svo Kvika frá Forstwald með einkunnina 8,10. Kvika er sýnd af Rúnu Einarsdóttir Zingsheim fyrir Þýskaland. Kvika lækkað ekki jafn mikið og hinar en í forskoðun fékk hún 8,14.

Í gær fjölgaði mótsgestum mjög mikið. Það vakti athygli hvað það voru mjög margir að fylgjast með kynbótasýningum miðað við hvernig það hefur verið á öðrum heimsmeistaramótum hingað til. Veðrið hefur verið með ágætum, léttskýjað og um 20 gáðu hiti.

Mótshaldarar reikna með mikilli sprengingu á fjölda mótsgesta í dag. Keppnin hefst verður í tölti þar sem Jóhann R. Skúlason á titil að verja. Það er mjög spennandi að sjá í hvernig formi hesturinn hans Hvinur verður í og hvort Jóhanni takist að næla sér í þriðja töltbikarinn í röð og þann fjórða í allt. Einnig verðu keppt í slakataumatölti en þar er Jolly Schrenk á Laxness frá Störtal talin mjög sigurstrangleg.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert