Um sex þúsund manns voru viðstaddir formlega setningu Landsmóts
hestamanna á Gaddstaðaflötum á Hellu í blíðskaparveðri í kvöld.
Um 500 knapar og hestar þeirra tóku þátt í hópreið allra hestamannafélaga á landinu. Á eftir fánaberum riðu knapar í viðhafnarbúningi og fyrirsvarsmenn íslenskrar hestamennsku.
Í fylkingarbrjósti voru einnig ráðherrar úr ríkisstjórn Íslands, Geir H. Haarde forsætisráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, Einar K. Guðfinsson landbúnaðarráðherra, Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra og Árni Mathiesen fjármálaráðherra, auk Sturlu Böðvarssonar, forseta Alþingis.
Fluttar voru setningarræður og Garðar Cortes stjórnaði fjöldasöng. Mikil
stemming er á mótssvæðinu og búist við miklum fjölda gesta um helgina, enda hápunktar mótsins framundan og veðurútlit gott, samkvæmt tilkynningu frá móthöldurum.