Aðal röddin á Landsmótinu

Friðrik Pálsson
Friðrik Pálsson mbl.is/Ómar

Kunnugleg rödd berst til eyrna spenntra landsmótsgesta á Hellu, traust rödd og kunnugleg hverjum þeim sem sótt hafa stórar hestamannasamkomur. Aðalþulur mótsins er Friðrik Pálsson og rödd hans hljómaði á glæsilegri mótssetningu við Rangárbakka í gærkvöldi.

Friðrik viðurkennir að hann fái alltaf einhver jákvæð viðbrögð við rödd sinni á mótum en segir starf sitt ekki merkilegt miðað við starf margra annarra. Hlutverk sitt sé að aðstoða við að halda utan um dagskrá mótsins ásamt mótstjórninni sem er mikilvægt á svo umfangsmiklu móti.

Aðalþulur í þriðja sinn

„Þetta er í þriðja sinn sem ég sinni þessu verkefni,“ segir Friðrik og undirstrikar af stakri hógværð að aðrir sérþjálfaðir kynnar sjái um kynbótasýningarnar og gæðingakeppnina. „Þar er valinn maður í hverju rúmi,“ segir Friðrik.

Hann segir framtíð íslenska hestsins bjarta. „Áhugi á hestamennsku er gríðarlega vaxandi. Þetta er skemmtileg íþrótt og lífsstíll. Afar algengt er að öll fjölskyldan fari í þetta. Hvort tveggja er að fólk vill gjarna eyða miklum tíma í hestana og þetta er afskaplega heilbrigt sport; mikil hreyfing og útivera. Andlega hliðin á hestamennsku er í mínum huga mjög mikilsverð. Það er göfgandi að umgangast þessar skepnur, þær eru yfirleitt hlýjar og sjálfstæðar en um leið verða tryggar og mannelskar við rétt uppeldi. Þeir sem á annað borð fara í hestamennsku af einhverri alvöru uppskera yfirleitt mikla ánægju og gleði,“ segir Friðrik.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert