Stærsti íþróttaviðburður ársins

Landsmót hófst í dag og er stærsti íþrótta- og mannlífsviðburður …
Landsmót hófst í dag og er stærsti íþrótta- og mannlífsviðburður ársins. Gígja Dögg Einarsdóttir

Um 1.000 hross verða sýnd á Landsmóti hestamanna 2012 sem hefst í dag klukkan níu, í Víðidal í Reykjavík og stendur yfir til 1. júlí. Umgjörð mótsins er glæsilegri en nokkru sinni fyrr, en um er að ræða stærsta íþrótta- og mannlífsviðburð sem haldinn er hérlendis á árinu. Búist er við 10-15 þúsund gestum, innlendu og erlendu áhugafólki um íslenska hestinn. Veðurspáin er einnig eins og best verður á kosið.

Um 500 knapar tefla gæðingum sínum fram, sá yngsti er 7 ára og sá elsti á sjötugsaldri. Sýnd verða hross í gæðingakeppni, tölti, á kynbótabrautinni og að auki verður keppt í skeiðgreinum. 

Sérstök áhersla er lögð á að gera Landsmótið að stórviðburði fyrir alla fjölskylduna. Með það að markmiði hefur ævintýragarður verið reistur fyrir börnin og landsþekktir listamenn skemmta landsmótsgestum að kveldi. 

Slegið hefur verið upp stóru markaðssvæði þar sem hestatengdar vörur verða til sýnis og sölu. Þá hefur reiðhöllinni verið breytt í veitingasal, en þar verður einnig lifandi tónlist og aðrar uppákomur. Að auki verður boðið upp á sýnikennslu og fjölda fyrirlestra þar sem helstu knapar og reiðkennarar landsins miðla af reynslu sinni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert