Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir verður á meðal gesta á Landsmóti hestamanna í ár og ekki í fyrsta sinn. Í þetta skiptið er hún þó hvorki að keppa né fylgjast með hestum og mönnum leika listir sínar, heldur verður Áslaug í því hlutverki að halda uppi lögum og reglu á svæðinu.
Áslaug, sem stundar laganám á veturna, er sumarafleysingamaður hjá lögreglunni á Hvolsvelli og hluti af teymi lögreglumanna á landsmótssvæðinu og í sveitinni í kring.
Vinnureglur koma í veg fyrir að Áslaug geti tjáð sig mjög um skipulag löggæslunnar á hátíðinni, en hún segir þó að á svæðinu verði öflug löggæsla, enda von á miklum fjölda gesta sem dreifast yfir stórt svæði. Áslaug á þó ekki von á öðru en allt muni fara vel fram, að vanda. „Ég held að hestamenn muni, eins og á fyrri landsmótum, sýna sínar bestu hliðar,“ segir hún og bætir við að andinn á landsmóti hestamanna sé ávallt jákvæður og skemtilegur. „Landsmótið er fjölskylduvænn viðburður og stemningin meðal gesta eftir því. Mikið er um heilu fjölskyldurnar, jafnvel stórfjölskyldurnar, sem koma á mótið, ýmist til að keppa, fylgjast með einum fjölskyldumeðlima spreyta sig eða einfaldlega til að sýna sig og sjá aðra á þessu stóra manna- og hestamóti.“
Blaðamaður getur ekki stillt sig um að spyrja hvort Áslaug hyggist nokkuð gegna lögregluskyldum sínum á hestbaki. Hún segist vera hrædd um ekki, enda hestar ekki notaðir við löggæslustörf hér á landi ólíkt mörgum öðrum stöðum í heiminum. „Það væri mjög skemmtilegt að prufa, en er líklega ekki hentugt, hvorki í dreifbýli né þéttbýli.“
Áslaug hefur stundað hestamennsku frá blautu barnsbeini. Hún segist hafa verið sex eða sjö ára þegar hún fór fyrst að ríða út, en áhugann á hestum erfði hún frá föður sínum. „Frá upphafi var bakterían kirfilega föst í mér og áhuginn bara ágerðist. Áður en langt um leið var ég komin í úrtökumót og loks á mitt fyrsta landsmót árið 2002,“ segir hún. „Eins og vill gerast með börn sem byrja ung að stunda íþróttir varð fljótt til sérstök hilla inni í svefnherbergi þakin verðlaunapeningum og bikurum, en ég hef reyndar líka fengið að kynnast því að klúðra úrtöku og þurft að sitja í brekkunni með sárt ennið.“
Hefur Áslaug verið í keppendahópnum á Landsmóti hestamanna í fjögur skipti. Við bætast mörg mót þar sem hún hefur mætt á landsmótið sem áhorfandi, og svo mótið síðasta sumar þar sem hún var sérlegur fréttaritari mbl.is á svæðinu.
Það var ekki fyrr en Áslaug hóf háskólanám að hún þurfti að fækka heimsóknunum upp í hesthús enda námið í meira lagi krefjandi. Hún er þó fjarri því búin að leggja hnakkinn á hilluna og reynir að fara reglulega á bak.
Þótt reiðtúrunum hafi fækkað segir Áslaug að hestamennskan hafi góð áhrif á sig enn þann dag í dag og hafi mótað sig til hins betra sem manneskju. „Börn sem stunda hestamennsku læra fljótt að leggja sig mikið fram við það sem þau fást við. Þetta er íþrótt sem kennir þeim að með elju, skipulagi og vinnu er hægt að taka stöðugum framförum. Þá er hestamennskan ekki síður góð fyrir þær sakir að þar kynnist maður góðu fólki og í gegnum þetta sport hef ég eignast mikið af mínum kærustu vinum.“
Hún segir líka að sambandið milli manns og hests hafi óumdeilanlega góð áhrif á sálina. „Þetta samband er mikils virði. Hestar eru lifandi dýr sem reiðmaðurinn þarf ekki aðeins að þekkja út og inn heldur líka treysta, þjálfa og hlúa vel að. Um leið uppsker hestamaðurinn eins og hann sáir.“