Bresk blöð spá því í dag að Steve McClaren, knattspyrnustjóri Middlesbrough, verði ráðinn landsliðsþjálfari Englands í knattspyrnu í vikunni. Stjórn enska knattspyrnusambandsins mun koma saman á fimmtudag og er talið að stjórnarmenn verði þar beðnir um að staðfesta ráðningu McClarens.
Fréttir voru um það í síðustu viku, að Portúgalinn Luiz Felipe Scolari væri líklegur eftirmaður Svíans Sven-Göran Erikssons, sem hættir eftir heimsmeistaramótið í knattspyrnu en Scolari lýsti því yfir að hann hefði ekki áhuga. Þá hafa Sam Allardyce, Alan Curbishley og Martin O'Neill einnig verið nefndir.