Áhangendur enska landsliðsins í knattspyrnu eru að klára bjórinn í Þýskalandi. Bruggverksmiðjur í landinu hafa nú sent frá sér viðvaranir um að bjórbirgðir þeirra gætu klárast þar sem þær anni ekki eftirspurn.
Í borginni Nuremberg voru 1,2 milljónir hálfslítra krúsa tæmdar á meðan á leik Englendinga og Trinidad stóð, að sögn breska götublaðsins The Sun.
Kráareigendur í Stuttgart hafa svipaða sögu að segja, að 900.000 krúsum hefði verið torgað aukalega um seinustu helgi þegar Englendingar fögnuðu sigri yfir Ekvador. Í Köln áttust Englendingar og Svíar við og kláruðust þá allar bjórtunnur og -flöskur í borginni.