Zidane kjörinn besti leikmaður HM

Marco Materazzi fellur til jarðar eftir bylmingshögg frá Zidane.
Marco Materazzi fellur til jarðar eftir bylmingshögg frá Zidane. Reuters

Franski knattspyrnumaðurinn Zinadine Zidane var valinn besti leikmaður Heimsmeistaramótsins í kjöri sem Alþjóðaknattspyrnusambandið, FIFA, stóð fyrir og greiddu íþróttafréttamenn víða að úr heiminum atkvæði. Zidane fékk því hinn svokallaða Gullna bolta þrátt fyrir að hafa ráðist á mótherja sinn, Marco Materazzi, í lokaleiknum og skallað hann í brjóstkassann. Fabio Cannavaro og Andrea Pirlo komu næstir, en atkvæði voru greidd í hálfleik sem útskýrir líklega sigur Zidane.

Frakkar eru í sárum og þá ekki aðeins eftir tap sinna manna heldur einnig uppátæki Zidane, eða Zizou eins og Frakkar kalla hann. Materazzi lét einhver orð falla sem enginn annar en þeir tveir heyrðu.

Zidane fékk rauða spjaldið og gat því ekki tekið þátt í vítaspyrnukeppni sem réð úrslitum leikjarins. Íþróttamálaráðherra Frakklands, Jean-Francois Lamour, segist ekki vita hvað Materazzi sagði við Zidane en að greinilega hafi verið um ögrun að ræða og hegðun Zidane ófyrirgefanleg. „Þetta er undarlegur endir á ferli mikils meistara,“ sagði Lamour í viðtali við sjónvarpsstöðina LCI í gær.

Forseti franska knattspyrnusambandsins Jean-Pierre Escalettes sagðist hafa þakkað Zidane fyrir framlag sitt til knattspyrnunnar að leik loknum en að þeir hefðu ekki talast frekar við. „Hann er óánægður,“ sagði Escalettes við dagblaðið Le Parisien. Franska íþróttablaðið L'Equipe sagðist ekki vita hvað segja ætti við börnin í Frakklandi, en Zidane er þar mikið átrúnaðargoð. Íþróttastjörnur á við Muhammed Ali hefðu aldrei misst stjórn á sér með viðlíka hætti.

Zidane hefur áður misst stjórn á sér. Fyrir átta árum fékk hann rauða spjaldið fyrir að traðka á andstæðingi í leik gegn Sádí Arabíu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert