Sameinast um að sýna frá HM

Suður-Afríka mun halda HM í knattspyrnu í sumar.
Suður-Afríka mun halda HM í knattspyrnu í sumar. Reuters

Ríkisútvarpið og Stöð 2 Sport hafa gert samstarfssamning um að sýna alla leikina í heimsmeistarakeppninni í knattspyrnu beint í sumar en RÚV hafði tryggt sér sýningarréttinn á viðburðinum.

Í tilkynningu frá Ríkisútvarpinu og 365 miðlum segir, að Stöð 2 Sport fái með samningnum góða viðbót við dagskrá sína og samningurinn létti á RÚV fjárhagslega.

Heimsmeistarakeppnin í Suður-Afríku stendur frá 11. júní til 11. júlí og verða alls leiknir leikir. Sjónvarpið frumsýnir 46 leiki heimsmeistarakeppninnar og Stöð 2 Sport frumsýnir 18 leiki. Báðar stöðvarnar munu meðan á keppninni stendur endursýna alla leikina 64 auk þess sem leikjunum verður gerð ítarleg skil í samantektarþáttum.

Sjónvarpið sýnir opnunarleikinn milli Suður-Afríku og Mexíkó kl. 14.00 þann 11. júní. Strax daginn eftir mun Stöð 2 Sport senda út leik Suður-Kóreu og Grikklands. Sjónvarpið sendir næstu daga út þá leiki sem fram fara kl. 14.00 og 18.30, alls 22 leiki en Stöð 2 Sport þá leiki sem fram fara kl. 11.30, alls 10 leiki. Á tímabilinu frá 22. - 25. júní, fara síðustu leikir riðlakeppninnar fram, tveir leikir samtímis hvern dag. Sjónvarpið sýnir leikina: Frakkland – Suður-Afríka, Grikkland – Argentína, Slóvenía – England, Ghana – Þýskaland, Slóvakía – Ítalía, Kamerún – Holland, Portúgal – Brasilía og Chile – Spánn. Á Stöð 2 Sport verður boðið upp á Mexíkó – Úrúgvæ, Nígería – Suður-Kórea, Bandaríkin – Alsír, Ástralía – Serbía, Paragvæ – Nýja Sjáland, Danmörk – Japan, Norður-Kórea – Fílabeinsströndin og Sviss – Hondúras. Eftir þetta færast beinar útsendingar aftur í Sjónvarpið eingöngu. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert