Robben er mættur til Suður-Afríku

Arjen Robben kemur útúr flugstöðinni í Jóhannesarborg í dag.
Arjen Robben kemur útúr flugstöðinni í Jóhannesarborg í dag. Reuters

Arjen Robben, hinn snjalli kantmaður hollenska landsliðsins í knattspyrnu, kom til Suður-Afríku í dag en vonast er til að hann nái að spila með liðinu í keppninni þrátt fyrir meiðsli.

Robben tognaði í læri í vináttuleik gegn Ungverjum um síðustu helgi og hætta var talin að hann væri úr leik á HM. Bert van Marwijk þjálfari Hollendinga ákvað að halda honum í sínum hópi og bati Robbens hefur síðan verið framar vonum.

„Ég hef ekki séð hann í viku, við sjáum til hvernig hann er þegar hann kemur," sagði van Marwijk við fréttamenn eftir æfingu í gær.

Ekki er talið líklegt að van Marwijk tefli Robben fram í leiknum við Dani á mánudaginn, reyni frekar að fá hann kláran í næsta leik á eftir, og miðað við æfingu liðsins í gær kemur þá Rafael van der Vaart inní byrjunarliðið í hans stað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert