Vuvuzela bannað á leikjum HM?

Blásið í vuvuzela á leik á HM.
Blásið í vuvuzela á leik á HM. Reuters

Danny Jordaan, framkvæmdastjóri heimsmeistarakeppninnar í fótbolta í Suður-Afríku, segir að vel komi til greina að banna vuvuzela-lúðrana á leikjum keppninnar eftir miklar kvartanir frá því keppnin hófst.

Vart heyrist mannsins mál á leikjunum vegna stöðugs lúðrablásturs þannig að lítið heyrist af hefðbundinni hvatningu eða söngvum áhorfenda. Leikmenn, þjálfarar og starfsmenn sjónvarps- og útvarpsstöðva hafa kvartað mikið undan hávaðanum.

Patrice Evra, fyrirliði Frakka, hefur þegar stigið fram og krafist þess að eitthvað verði gert í málunum. „Það er ekki svefnfriður á nóttunni vegna lúðranna. Fólk er byrjað að blása í þá klukkan sex á morgnana. Inni á vellinum heyrum við ekki hver í öðrum," sagði Evra við fréttamenn eftir jafnteflið gegn Úrúgvæ í fyrrakvöld.

„Ef aðstæður koma upp sem krefjast þess munum við banna vuvuzela innan leikvanganna. Til dæmis ef einhver myndi kasta lúðri inná völlinn eða eitthvað áþekkt myndi gerast. Við höfum reynt að koma reglu á hlutina, höfum beðið um að ekki sé blásið á meðan þjóðsöngvar eru leiknir eða tilkynningar lesnar upp á völlunum. Þetta er erfitt en við reynum að hafa stjórn á þessu. Starfsfólk sem vinnur við útsendingar hefur kvartað, sem og einstaklingar, og við fylgjumst stöðugt með gangi mála," sagði Jordan við BBC og kvaðst sjálfur ekki hrifinn.

„Ég myndi frekar vilja heyra söngva sem alltaf setja frábæran svip á fótboltaleiki, og myndi hvetja til þess  að þeir kæmu í staðinn," sagði Jordaan.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert