Spánverjar eru afar svekktir yfir tapinu óvænta gegn Sviss í gær á HM í Suður-Afríku. Leita þeir víða skýringa og er unnustu markvarðarins Iker Casillas, hinni íðilfögru Söru Carbonero, meðal annars kennt um tapið.
Carbonero er íþróttafréttamaður og hefur verið valin kynþokkafyllsta fjölmiðlakona heims, en hún er fræg á Spáni fyrir viðtöl sín við knattspyrnumenn á hliðarlínunni eftir leiki. Það vakti hins vegar óánægju meðal margra að hún skyldi fara fyrir hönd sinnar sjónvarpsstöðvar til Suður-Afríku í ljósi sambands hennar við Casillas, en leikmenn spænska landsliðsins eru alla jafna ekki innan um konur sínar eða kærustur á meðan þeir taka þátt í stórmóti. Carbonero tók einmitt viðtal við Casillas eftir leikinn við Sviss.
Carbonero þvertekur hins vegar fyrir að hún hafi haft einhver áhrif á að Sviss fór með sigur af hólmi, 1:0.
„Á ég að geta komið liðinu úr jafnvægi? Mér finnst það fráleitt,“ sagði Carbonero í viðtali við sjónvarpsstöð sína, Telecinco.