Móðir Domenech hundfúl út í Anelka

Raymond Domenech á flugvellinum í Bloemfontein í gær en Frakkar …
Raymond Domenech á flugvellinum í Bloemfontein í gær en Frakkar leika þar við Suður-Afríku í dag. Reuters

„Ég myndi gjarnan vilja hitta Anelka og kynna honum sjónarhorn móður,“ sagði móðir þjálfara franska karlalandsliðsins í knattspyrnu, Germaine Domenech, í samtali við frönsku útvarpsstöðina RTL. Hún er afar ósátt við leikmanninn Nicolas Anelka sem sendur var heim af HM í Suður-Afríku eftir orðaskipti kappans við son Germaine, Raymond Domenech.

Anelka á m.a. að hafa kallað þjálfara sinn „hóruson“ í leikhléi þegar Frakkland og Mexíkó áttust við á fimmtudag, eftir að Raymond hafði gagnrýnt Chelsea-manninn fyrir frammistöðuna í leiknum.

„Það er sárt að verða fyrir svona móðgun því hann er ekki bara þjálfari heldur líka sonur minn. Þetta er móðgun við bæði hann og mig sem móður hans,“ sagði Domenech og bætti því að afsökunarbeiðni frá Anelka myndi lítið hjálpa þar sem skaðinn væri þegar skeður. Hún vonast til að Frakkar reki af sér slyðruorðið í lokaumferð riðlakeppninnar en þeir mæta Suður-Afríku í dag og þeir gætu með sigri átt möguleika á að komast í 16-liða úrslitin.

„Frammistaðan og sú staðreynd að liðið skyldi fara í verkfall og sleppa æfingu er óviðunandi. Þeir sem klæðast frönsku landsliðstreyjunni eru fulltrúar Frakklands. Nú erum við aðhlátursefni heimsbyggðarinnar en þeir hafa tækifæri til að sýna að þeir klæðist treyjunni stoltir, og geti fyllt frönsku þjóðina stolti,“ sagði þessi skelegga móðir sem er 80 ára ellilífeyrisþegi. sindris@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert