Bradley: Getum farið alla leið í úrslit

Bob Bradley landsliðsþjálfari Bandaríkjanna er bjartsýnn.
Bob Bradley landsliðsþjálfari Bandaríkjanna er bjartsýnn. Reuters

Bob Bradley, þjálfari bandaríska landsliðsins í knattspyrnu, segist hafa fulla trú á að lið hans geti brotið blað og komist alla leið í úrslitaleik á heimsmeistaramótinu. Iðjusemi og dugnaður hefur þótt vera aðalmerki bandaríska liðsins á heimsmeistaramótinu fram til þessa. Bradley segist ekki í vafa um að þessi tvö atriði skili liðinu langt.

Bandaríkjamenn mæta Gana síðar í dag í 16-liða úrslitum heimsmeistarakeppninnar. „Ef við höldum áfram að byggja ofan á það sem við höfum gert vel í þessari keppni getum við farið langt," segir Bradley.

Bandaríkin náðu þriðja sæti á HM 1930. Síðan hefur bandarískt landslið ekki komist svo langt á HM.

Árangur bandaríska landsliðsins hefur vakið nokkra athygli í heimalandinu. Bill Clinton fyrrverandi forseti var á meðal áhorfenda á viðureign liðs við Alsír í vikunni og á fimmtudagskvöldið sló Barack Obama á þráðinn til þjálfarans og hvatti leikmenn til dáða.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert