Sepp Blatter, forseti Alþjóða knattspyrnusambandsins FIFA, hefur varað Nicolas Sarkozy við að skipta sér af innanbúðarmálum franska knattspyrnusambandsins. Blatter segir til greina komi að útiloka Frakka frá þátttöku í alþjóðlegum mótum ef það sannast að stjórnmálamenn hafi afskipti af málefnum sambandsins.
Blatter segir þetta í framhaldi af afsögn forseta franska knattspyrnusambandsins í gær en Sarkozy hafði áður sagt að stjórnendur franska sambandsins ætti að íhuga sína stöðu. Þá hefur Sarkozy einnig sagt að hann vilji láta fara fram sérstaka rannsókn á því hvað valdið hafi slökum árangri franska landsliðsins á heimsmeistaramótinu í Suður-Afríku.
FIFA hefur nokkrum sinnum gripið til þess ráðs að setja knattspyrnusambönd í keppnisbann vegna pólitískra afskipta. Nokkur Afríkuríki hafa lent í banni og aðeins eru fáein ár síðan pólska knattspyrnusambandið var sett í tímabundna gjörgæslu af hálfu FIFA eftir að stjórn sambandsins var skipt úr fyrir menn sem voru hallir undir þáverandi stjórnvöld.
Frakkar verða gestgjafar Evrópumeistaramótsins í knattspyrnu 2016.