Blatter biður England og Mexíkó afsökunar

Sepp Blatter fylgist með leik Bandaríkjanna og Gana ásamt Bill …
Sepp Blatter fylgist með leik Bandaríkjanna og Gana ásamt Bill Clinton, fyrrum forseta Bandaríkjanna. Reuters

Sepp Blatter, forseti Alþjóða knattspyrnusambandsins, FIFA, hefur beðið Englendinga og Mexíkóa afsökunar á mistökum dómaranna í leikjum liðanna í 16-liða úrslitum HM í Suður-Afríku.

Úrúgvæskur aðstoðardómari sá ekki að Frank Lampard skoraði fyrir England gegn Þýskalandi þegar hann skaut í þverslána og inn í leik þjóðanna, og ítalskur kollegi hans sá ekki að Carlos Tévez var rangstæður þegar hann kom Argentínu yfir gegn Mexíkó.

„Ég talaði við fulltrúa knattspyrnusambanda þessara tveggja landa í gær um mistök dómaranna. Ég bað þá afsökunar og ég skil vel að menn séu ósáttir og hafi gagnrýnt frammistöðu þeirra," sagði Blatter við fréttamenn í morgun.

Blatter sagði jafnframt að möguleikinn á að beita sjónvarpstækni við að skera úr um hvort mörk séu skoruð verði ræddur á fundi hjá FIFA í næsta mánuði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka