Ronaldo: Ég er niðurbrotinn maður

Cristiano Ronaldo gengur niðurlútur af velli eftir ósigurinn gegn Spánverjum …
Cristiano Ronaldo gengur niðurlútur af velli eftir ósigurinn gegn Spánverjum í gærkvöld. Reuters

Cristiano Ronaldo er niðurbrotinn maður eftir fall Portúgala á heimsmeistaramótinu í knattspyrnu en Portúgalar urðu að játa sig sigraða gegn Evrópumeisturum Spánverja í 16-liða úrslitum í gær. Ronaldo segir á vef sínum að hann sé mjög sorgmæddur yfir niðurstöðunni en fyrirliðinn náði sér engan veginn á strik á HM.

,,Ég er niðurbrotinn maður, dapur, svekktur og ótrúlega sorgmæddur,“ segir Ronaldo í yfirlýsingu á vef sínum.

Ronaldo neitaði að ræða við fréttamenn eftir leikinn í gær en það eina sem hann lét hafa eftir sér var; ,,Hvernig get ég skýrt ósigurinn? Spyrjið þjálfarann Carlos Queiroz.“

Ronaldo var harðlega gagnrýndur fyrir hrokafulla framkomu eftir leikinn og að taka ekki ábyrgð sem fyrirliði portúgalska landsliðsins.

,,Þegar ég beindi orðum mínum að þjálfaranum var það vegna þess að Carlos Queiroz hélt blaðamannafund. Ég var ekki í aðstöðu til útskýra hlutina. Ég er mannlegur og eins og allir þá get ég þjáðst og hef rétt til að gera það í friði. Ég veit að ég er fyrirliði og ég mun eins og ráð er fyrir gert bera mína ábyrgð,“ segir Ronaldo, sem átti frábæru gengi að fagna með Real Madrid á leiktíðinni en náði ekki að vinna einn einasta titil með liðinu.

Ronaldo kemur að óbreyttu með portúgaska landsliðinu til Íslands í október en Íslendingar taka á móti Portúgölum í undankeppni Evrópumótsins á Laugardalsvellinum þann þriðjudaginn 12. október.



mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert