Carlos Queiroz landsliðsþjálfari Portúgala í knattspyrnu, segir að Cristiano Ronaldo verði að bæta leik sinn ef hann eigi að eiga öruggt sæti í byrjunarliðinu.
Dýrasti knattspyrnumaður heims hefur alls ekki náð að sýna sínar bestu hliðar í treyju portúgalska landsliðsins undanfarna mánuði og frammistaða hans með liðinu á HM var slök.
Ronaldo skoraði aðeins eitt mark og virkaði mjög pirraður og með litla leikgleði en Portúgalar töpuðu fyrir Spánverjum í 16-liða úrslitunum í fyrrakvöld. Ronaldo sagði á vef umboðsmanns síns í gær að hann væri niðurbrotinn maður en hann fékk enga samúð frá landsliðsþjálfaranum. Queiroz sagði að Ronaldo yrði að standa sig fyrir þjóð sína.
„Portúgal þarf á Ronaldo að halda og Ronaldo þarf á landsliðinu að halda,“ sagði Queiroz en hann mætir með lærisveina sína á Laugardalsvöllinn í október þegar Ísland og Portúgal eigast við í undankeppni Evrópumótsins. Ef að líkum lætur verður Ronaldo með í þeim slag.