Miroslav Klose framherjinn skæði í þýska landsliðinu leikur í dag sinn 100. landsleik þegar Þjóðverjar mæta Argentínumönnum í átta liða úrslitunum heimsmeistaramótsins í knattspyrnu. Klose hefur skorað tvö mörk á mótinu og hann viðurkennir að hann hafi augastað á markametinu.
Brasilíumaðurinn Ronaldo er markahæsti leikmaður í sögu úrslitakeppni HM með 15 mörk en Klose, sem skoraði sitt 50. landsliðsmark í 4:1 sigrinum á Englendingum í 16-liða úrslitunum, hefur skorað 12 mörk í þremur úrslitakeppnum, jafnmörg og brasilíska goðsögnin Pele.
Klose, sem er 32 ára gamall og er fæddur í Póllandi, er eini leikmaðurinn í Suður-Afríku sem á raunhæfa möguleika á að ná Ronaldo. „Ég hef skorað fimm mörk í síðustu tveimur heimsmeistarakeppnum svo nokkur mörk til viðbótar ættu að koma ef markahlutfall mitt á síðustu mótum heldur áfram," sagði Klose við þýska blaðið Bild en hann varð markakóngur á HM í Þýskalandi fyrir fjórum árum.
Klose er á mála hjá þýska meistaraliðinu Bayern München. Honum gekk ekki sem skildi á leiktíðinni sem lauk í maí en framherjinn skoraði aðeins þrjú mörk og vermdi varamannabekkinn í mörgum leikjum liðsins.