Maradona og hans menn í hefndarhug

Diego Maradona vígreifur á blaðamannafundi í Höfðaborg í gær.
Diego Maradona vígreifur á blaðamannafundi í Höfðaborg í gær. Reuters

Leiks Argentínu og Þýskalands í átta liða úrslitum heimsmeistaramótsins sem fram fer í Höfðaborg í dag er beðið með mikilli eftirvæntingu um gjörvalla heimsbyggðina.

Þessar stórþjóðir á knattspyrnuvellinum hafa heillað marga í Suður-Afríku og líklega eru þetta liðin sem hafa spilað skemmtilegsta fótboltann á mótinu. Þjóðverjarnir með ungt og sprækt lið sem hefur geislað af leikgleði og í argentínska liðinu er valinn maður í hverju rúmi með skemmtikraftinn Diego Maradona við stjórnvölinn.

Hafa tvisvar mæst í úrslitaleik

Argentína og Þýskaland hafa marga hildi háð í gegnum tíðina. Argentínumenn með Diego Maradona í broddi fylkingar lögðu Þjóðverja í úrslitaleik í Mexíkó 1986 en Þjóðverjar komu fram hefndum á HM á Ítalíu 1990 og unnu S-Ameríkuliðið í úrslitaleik. Á HM í Þýskalandi fyrir fjórum árum áttust þjóðirnar við í 8-liða úrslitum þar sem þýska liðið fagnaði 4:2 sigri í vítakeppni.

Hefnd er í hugum Argentínumanna eftir úrslitin fyrir fjórum árum.

„Leikmenn mínir ætla að mæta til leiks í hefndarhug. Þjóðverjarnir eru sterkari en Mexíkóar sem við unnum í 16-liða úrslitunum en við munum tefla fram réttum leikmönnum til leggja þá að velli,“ sagði Maradona við fréttamenn í gær.

Eins og ég sé að fara að spila

„Mér líður eins og ég sé að fara að í treyjuna og að spila sjálfur. Það er yndislegt að vera partur af þessu frábæra liði og ég er stoltur að deila þessum stundum með leikmönnum mínum,“ sagði Maradona, sem svo sannarlega hefur heillað marga með fasi sínu á HM. Maradona ætti að geta stillt upp sínu sterkasta liði með snillinginn Lionel Messi í fremstu víglínu en Messi bíður enn eftir fyrsta marki sínu á HM.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert