„Við svindluðum ekki. Þetta voru ósjálfráð viðbrögð hjá Luis,“ segir Oscar Tabarez, þjálfari Úrúgvæ um það þegar Luis Suarez varði skot frá Ghana á lokasekúndum framlengingar í leik liðanna í 8-liða úrslitum HM í gær.
Forkólfar UEFA íhuga hvort setja eigi Suarez í tveggja leikja bann í stað eins leiks eins og venjan er þegar leikmaður fær rautt spjald eins og Suarez fékk við þetta tækifæri. „Það er víst hægt að úrskurða menn í tveggja leikja bann fyrir mjög óíþróttamannslega hegðun. En slíku er ekki til að fara í þessu tilviki. Þetta voru ósjálfráð viðbrögð leikmanns á marklínu og ég held að flest allir leikmenn hefðu gert það sama, sagði Tabarez.
„Þegar það er vísvitandi hendi innan teigs þá er það víti og rautt spjald. Luis var rekinn af velli og missir af næsta leik okkar og hvað vilja menn meira. Þetta var hárrétt hjá dómaranum, en við svindluðum ekki og það var ekkert óheiðarlegt við þetta. Á líka að kenna okkur um að Gyan skoraði ekki úr vítinu?“