Goðsögnin Ruud Gullit fyrrum fyrirliði hollenska landsliðsins í knattspyrnu heldur því fram að kantmaðurinn Arjen Robben verði í lykilhlutverki þegar Hollendingar etja kappi við Úrúgvæa í undanúrslitum heimsmeistarakeppninnar í knattspyrnu í Höfðaborg í kvöld.
Gullit er eini fyrirliði Hollendinga sem hefur lyft stórum titli en hann var fyrirliði Hollendinga þegar þeir hömpuðu Evrópumeistaratitlinum árið 1988 eftir sigur á Sovétmönnum í úrslitaleik.
,,Robben er ómissandi leikmaður. Hann er liðinu gífurlega mikilvægur enda er hann fær um að setja varnarmenn andstæðinganna á hælanna og þeir vita ekki hvað þeir eiga að gera. Þeir þurfa að tvövalda á hann og þá losnar um aðra leikmenn,“ sagði Gullit í viðtali við heimasíðu FIFA.
,,Robben er svo fljótur og kvikur og við erum afar ánægð að hann sé búinn að ná sér. Auðvitað hefur Sneijder verið mikilvægur. Hann hefur bæði skorað mörk og lagt þau upp. Hann er ekki sérstakur markaskorari og er frekar leikmaður sem leggur upp mörkin fyrir aðra. Sneijder hefur ekki komið mér á óvart heldur hefur það komið mér á óvart hversu mörg mörk hann hefur skorað,“ sagði Gullit.
,,Það vonast auðvitað allir Hollendingar að við förum alla leið. Við höfum tvisvar leikið til úrslita en tapað í bæði skiptin. Það sem er öðruvísi er það að ef okkur tekst að komast í úrslitin mætum við ekki heimaþjóðinni eins og við gerðum þegar við mættum Þjóðverjum og Argentínumönnum.“