Spænska pressan: Vondar fréttir - Webb dæmir

Howard Webb að störfum í leik Spánverja og Svisslendinga á …
Howard Webb að störfum í leik Spánverja og Svisslendinga á HM. Reuters

Sú ákvörðun FIFA að tilnefna Englendinginn Howard Webb dómara í úrslitaleik heimsmeistaramótsins í knattspyrnu fær ekki góðan hljómgrunn hjá spænsku pressunni en Spánverjar mæta Hollendingum í úrslitaleiknum í á Soccer City vellinum í Jóhannesarborg á sunnudagskvöldið.

,,Vondar fréttir - Webb dæmir úrslitaleikinn,“ segir í spænska íþróttablaðinu Marca í dag en Webb dæmdi fyrsta leik Spánverja á HM þegar þeir töpuðu óvænt fyrir Svisslendingum.

,,Umdeild ákvörðun“ segir í AS. ,,Webb gerði tvenn mistök sem kostuðu Spánverja ósigur á móti Svisslendingum.“

Marca vill meina að Webb hafi ekki dæmd augljósa vítaspyrnu þegar brotið var á David Silva og að markið sem Gelson Fernandes skoraði fyrir Sviss hafi verið rangstæða.

,,Webb kemur með til baka slæmar minningar“ segir í umfjöllun Mundo Deportivo.

Webb er 39 ára gamall lögreglumaður frá Jórvíkurskíri á Englandi og hefur verið álitinn einn besti dómarinn í Evrópu. Hann dæmdi viðureign Inter og Bayern München í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu í vor og fórst það verk vel úr hendi.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert