Ætlum að vinna kolkrabbann

Óscar Tabárez hvetur sína menn til dáða.
Óscar Tabárez hvetur sína menn til dáða. Reuters

Óscar Tabárez, landsliðsþjálfari Úrúgvæ í knattspyrnu, segir að sínir menn ætli ekki bara að vinna Þjóðverja í bronsleik HM í kvöld, þeir ætli líka að sigra kolkrabbann getspaka, Pál.

Spádómsgáfa kolkrabbans þýska hefur verið í hávegum höfð en hann hefur með matarvali sínu giskað rétt á öll úrslit leikja þýska liðsins á HM, og spáir nú Þjóðverjum sigur á Úrúgvæ í kvöld.

„Þetta snýst ekki bara um að sigra Þjóðverja, heldur líka að sigra kolkrabbann," sagði Tabárez á blaðamannafundi og glotti við tönn.

„Það yrði frábært afrek að vinna Þjóðverja og ég tel að við getum það. Með því myndum við senda út skilaboð um að allt sé hægt í fótbolta," sagði Tabárez.

Úrúgvæ er fámennasta þjóð Suður-Ameríku sem tekur þátt í knattspyrnukeppni álfunnar, en þar búa aðeins 3,5 milljónir manna. Liðið slapp naumlega inná HM, komst ekki beint í gegnum Suður-Ameríkukeppnina heldur þurfti að sigrast á Kostaríka í umspili um HM-sæti. Í Suður-Afríku var lið Úrúgvæ hinsvegar ósigrað þar til það tapaði 2:3 fyrir Hollendingum í stórskemmtilegum undanúrslitaleik á þriðjudagskvöldið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert