Bert van Marwijk, þjálfari hollenska landsliðsins, lýsti yfir óánægju með frammistöðu Howards Webbs dómara í úrslitaleik Hollands og Spánar á HM í gærkvöld en sagði að sigur Spánverja hefði verið verðskuldaður.
Van Marwijk sagði að sér virtist sem það hefði haft áhrif á Webb að hann dæmdi tapleik Spánverja gegn Sviss í fyrstu umferð riðlakeppninnar í Suður-Afríku.
„Mér fannst dómarinn ekki hafa góð tök á leiknum en ég vil að það sé á hreinu að betra liðið vann. Ég er að reyna að skilgreina leikinn eins vel og ég get en ég var búinn að lesa talsvert um hve pirraðir Spánverjar voru á dómgæslunni í fyrsta leik sínum, gegn Sviss. Ef maður skoðar frammistöðu dómarans í kvöld, væri hægt að draga þá ályktun að fyrsti leikurinn hefði haft áhrif á þennan," sagði van Marwijk.
Hann viðurkenndi þó að sum brot í leiknum hefðu verið ansi slæm en sagði að bæði lið ættu sök á því. Webb sýndi 13 leikmönnum gula spjaldið og í fjórtánda skiptið rak hann John Heitinga, varnarmann Hollendinga, af velli í framlengingunni.
„Það er ekki okkar stíll að vera grófir, við erum ekki vanir að fremja ljót brot. Þannig er ekki okkar fótbolti. En þetta var úrslitaleikur HM og menn voru spenntir. Ég tel að báðir aðilar, líka Spánverjar, hafi brotið mjög illa af sér. Ég var á bekknum og sá engar endursýningar. Ég verð að sjá þær til að átta mig á þessu."
Van Marwijk var eftir sem áður ánægður með frammistöðu Hollendinga í keppninni. „Það reiknaði enginn með því að við myndum leika til úrslita og það munaði litlu að við næðum í vítaspyrnukepni. Robben hefði líka getað skorað fyrir okkur. Ég veit ekki hvort það hefði verið verðskuldað ef við hefðum sigrað, en þetta er úrslitaleikurinn, allir vilja vinna og við hefðum getað unnið. Ég tel að við höfum staðið okkur virkilega vel með því að ná svona langt. Það blasti við að liðið sem skoraði á undan myndi sigra. Hefði Robben skorað, er líklegt að það hefði nægt okkur. En við höfðum því miður ekki heppnina með okkur."
Hann sagði að það hefði ekki verið ætlun Hollendinga að spila grófan fótbolta. „Við mættum til leiks til að spila góðan fótbolta en mótherjar okkur voru geysilega sterkir. Spánn hefur verið besta landslið heims síðustu ár og við þurftum að eiga okkar allra besta dag til að sigra. Okkur tókst vel upp í leikskipulaginu, komum okkur oft í góða stöðu. Bæði lið brutu illa af sér og í úrslitaleik er það ekki fallegt. Þannig er ekki okkar leikstíll en allir spila til sigurs. Þetta var úrslitaleikur HM og miklar tilfinningar í gangi. Það sást á báðum liðum. Ég hefði svo sannarlega viljað vinna, og ekki endilega með fallegasta fótboltanum," sagði hollenski þjálfarinn.