Argentínska knattspyrnulandsliðið sendi pólitísk skilaboð til Breta áður en það sigraði Slóveníu, 2:0, í vináttulandsleik í La Plata í Argentínu í gærkvöld.
Argentínsku leikmennirnir stilltu sér upp fyrir aftan stóran borða á vellinum en á honum stóð: „Falklandseyjar eru argentínskar".
Þeir minntu þar með á deilur þjóðanna um eyjarnar sem eru í suðurhluta Atlantshafs og lúta breskum yfirráðum en Argentína og Bretland háðu stríð vegna þeirra árið 1982. Argentínumenn hafa ætíð haldið áfram að krefjast yfirráða á eyjunum sem þeir telja að tilheyri þeim með réttu en Bretar hafa ráðið þeim frá árinu 1833.
Borðinn sést á flestum landsleikjum í Argentínu en með heimsmeistarakeppnina í Brasilíu á næsta leiti vekur hann meiri athygli en áður. England og Argentína geta þó ekki mæst í keppninni nema bæði liðin komist í undanúrslit en liðin hafa háð nokkra harða hildi á knattspyrnuvellinum eftir Falklandseyjastríðið.
Eftirminnilegastur er eflaust sigur Argentínu í leik þjóðanna á HM í Mexíkó árið 1986 þegar Diego Maradona skoraði tvívegis og í annað skiptið með „hönd guðs.“
„Ég veit að við sögðum alltaf að fótbolti kæmi stríðinu ekkert við en við vissum að okkar strákar höfðu fallið í átökunum, voru skotnir niður eins og litlir fuglar. Og við vorum með það í huga," sagði Maradona síðar um þann leik.
Argentína vann leikinn í gærkvöld, 2:0, með mörkum frá Ricardo Álvarez og Lionel Messi.