Dómararnir stálu senunni í sigri Mexíkó

Oribe Peralta fagnar markinu en Miguel Layun kemur í humátt …
Oribe Peralta fagnar markinu en Miguel Layun kemur í humátt á eftir honum. AFP

Mexíkó lagði Kamerún, 1:0, í síðari leik fyrstu umferðar A-riðils á heimsmeistaramótinu í Brasilíu í hellirigningu í Natal í dag.

Dómaratríó leiksins var sannarlega í sviðsljósinu, en þrjú mörk voru dæmd af vegna rangstæðu í fyrri hálfleik, tvö hjá Mexíkó og eitt hjá Kamerún. Það var réttur dómur í tilfelli Kamerún en Giovanni Dos Santos sem skoraði bæði ógildu mörk Mexíkóa var ranglega dæmdur rangstæður í bæði skiptin. Tveir rangir dómar og markalaust í hálfleik.

Mexíkó gekk á lagið í síðari hálfleik og Oribe Peralta kom þeim yfir á 61. mínútu með sínu fyrsta marki á heimsmeistaramóti, en hann var hetja liðsins á Ólympíuleikunum í London þar sem Mexíkó stóð uppi sem sigurvegari.

Kamerún bætti í sóknina undir lokin en allt kom fyrir ekki, lokatölur 1:0 og Mexíkó vann þar í fyrsta sinn Afríkulið á heimsmeistaramóti. Liðið er í öðru sæti riðilsins með þrjú stig ásamt Brasilíu.

Sjá einnig: HM 2014 Í BEINNI.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka