Króatískir fjölmiðlar fara ekki fögrum orðum um japanska dómarann Yuichi Nishimura sem dæmdi opnunarleik Brasilímanna og Króata á HM í gærkvöld.
Flestir eru sammála um að japanski dómarinn hafi fært Brasilíumönnum vítaspyrnu á silfurfati í stöðunni 1:1 seint í seinni hálfleik þegar framherjinn Fred lét sig falla í teignum.
„Óréttlæti og skömm“ er fyrirsögnin í stærsta blaði Króatíu, sem tekur undir ummæli Niko Kovac, landsliðsþjálfara Króata, eftir leikinn: „Ef þetta er vítaspyrna ættum við ekki spila fótbolta framar.“
„Neymar og japanski dómarinn Nishimura tóku í burtu stóran draum,“ segir í króatíska íþróttablaðinu Sportske Novosti.
Japanskir fótboltaáhugamenn skammast sín fyrir frammistöðu Nishimura, sem var kjörinn dómari ársins í Asíu fyrir tveimur árum. Margar Twitter-færslur þeirra voru um slaka frammistöðu dómarans í leiknum og að hann hefði verið á bandi Brasilíumanna. Sumir voru búnir að útbúa mynd af japanska dómaranum í treyju brasilíska landsliðsins.