Balotelli hetja Ítalíu gegn Englandi

Mario Balotelli skorar hér sigurmark Ítalíu án þess að Gary …
Mario Balotelli skorar hér sigurmark Ítalíu án þess að Gary Cahill og Joe Hart komi vörnum við. AFP

Seinni leik kvöldsins í D-riðli var að ljúka nú rétt í þessu þegar Ítalía lagði Englendinga að velli, 2:1, í bráðfjörugum leik í borginni Manaus nánast í miðjum Amazon-frumskóginum.

Leikurinn var mun opnari en menn bjuggust við og strax á fjórðu mínútu átti Raheem Sterling þrumuskot fyrir Englendinga sem small í utanverðum vinklinum og gaf þetta sannarlega góð fyrirheit fyrir leikinn.

Englendingar gerðu sig líklega en það voru hins vegar Ítalir sem skoruðu fyrsta markið, en það gerði Claudio Marchisio á 35. mínútu með frábæru skoti utan teigs eftir hornspyrnu. Það tók Englendinga hins vegar ekki nema tvær mínútur að jafna metin og þar var að verki Daniel Sturridge eftir magnaða sendingu frá Wayne Rooney. Menn ærðust af fögnuði sem gekk svo langt að Gary Lewin, sjúkraþjálfari Englendinga, fór úr ökklalið í látunum og var borinn af hliðarlínunni. 1:1 í hálfleik.

Síðari hálfleikur var ekki nema fjögurra mínútna gamall þegar enginn annar en Mario Balotelli kom Ítölum yfir á ný með skallamarki eftir frábæra sendingu frá Antonio Candreva af hægri kanti, en varnarleikur þeirra ensku var ekki merkilegur í aðdraganda marksins.

Englendingar réðu ferðinni seinni hluta hálfleiksins og reyndu hvað þeir gátu að jafna metin, en allt kom fyrir ekki og 2:1 sigur Ítalíu staðreynd. Þeir hafa nú 3 stig í D-riðli líkt og Kostaríka en England og Úrúgvæ eru án stiga.

Sjá einnig: HM 2014 Í BEINNI.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert