Brasilíski framherjinn Fred hefur í fyrsta sinn tjáð sig um vítaspyrnudóminn umdeilda í 3:1-sigrinum á Króatíu í opnunarleik HM á fimmtudag. Fred fór ansi auðveldlega niður í vítateignum og hefur fengið mikla gagnrýni fyrir. Hann hefur hins vegar komið sjálfum sér til varnar.
„Þetta var klár vítaspyrna, það er ekkert sem er meira víti en annað. Víti er víti. FIFA sagði dómurunum að passa upp á að það væri ekkert um peysutog í vítateigunum og þeir hafa tekið á þessu,“ sagði Fred og útskýrði aðdragandann að falli sínu.
„Ég var með stjórn á boltanum með hægri fæti og var að snúa mér þegar ég fékk högg á öxlina, náði ekki boltanum og missti jafnvægið. Ég er ekki leikmaður sem lætur sig falla. Margir segja að þetta hafi ekki verið víti, en ég fékk á mig högg sem var nógu mikið til þess að halda mér frá því að skora,“ sagði Fred.