Benzema og marklínutæknin fóru með Hondúra

Frakkland er í efsta sæti E-riðils eftir fyrstu umferð hans á HM í knattspyrnu í Brasilíu. Frakkar fóru illa með lið Hondúras, lokatölur 3:0.

Fyrri hálfleikur einkenndist af miklum barningi, þá sérstaklega á milli Paul Pogba og Wilson Palacios. Báðir hefðu þeir getað fengið rautt um miðbik hans eftir að allt ætlaði um koll að keyra, en gula spjaldið fengu þeir. Frakkar voru sterkari aðilinn og fengu vítaspyrnu þegar Palacios gerðist brotlegur innan teigs undir lok fyrri hálfleiks. Hann fékk sitt annað gula spjald, þar með rautt, og Karim Benzema kom Frökkum yfir af punktinum. 1:0 í hálfleik.

Síðari hálfleikur var einstefna enda brekkan brött fyrir tíu leikmenn Hondúras. Strax á þriðju mínútu síðari hálfleiks kom annað mark Frakka, sem skráist sem sjálfsmark á Noel Valladares, markvörð Hondúras. Benzema átti skot í stöngina, þaðan skoppaði boltinn meðfram marklínunni og þurfti að beita hinni frægu marklínutækni til þess að skera úr um hvort boltinn væri allur inni. Það reyndist svo og Valladares átti síðustu snertinguna, 2:0.

Enn sóttu Frakkar og uppskáru þriðja markið á 72. mínútu þegar Benzema, hver annar, skoraði með þrumuskoti úr vítateignum eftir hornspyrnu. Frakkarnir óðu í færum þar til yfir lauk, án þess þó að koma boltanum oftar í netið, lokatölur 3:0. Frakkar eru nú með þrjú stig á toppi E-riðils líkt og Sviss en Hondúras og Ekvador eru án stiga.

Sjá einnig: HM 2014 Í BEINNI.

Karim Benzema hafði efni á brosi í kvöld.
Karim Benzema hafði efni á brosi í kvöld. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert