Luis Suárez minnti svo sannarlega á sig þegar Úrúgvæ lagði England, 2:1, í D-riðli heimsmeistaramótsins í Brasilíu í kvöld. Hann skoraði bæði mörkin eftir að hafa verið frá í fyrsta leiknum eftir meiðsli.
„Þetta er ótrúlegt. Ég sagði liðinu að mig hefði dreymt að ég mundi skora tvö mörk í leiknum. Við urðum að vinna og við gerðum það. Nú verðum við að hugsa um næsta leik gegn Ítalíu sem verður önnur mikilvæg viðureign,“ sagði Suárez eftir leikinn og var tilfinningaríkur, en hann þurfti að gangast undir aðgerð á hné í maí.
„Þessi sigur er svar við öllum þeim sem sögðu slæma hluti um okkar lið. Þetta er fyrir þá. Fólk hló að meiðslum mínum sem var mér mjög erfitt og það er gott að svara fyrir sig. Við vissum að við gætum unnið í kvöld og við munum fara með sama hugarfar inn í leikinn gegn Ítalíu.“