Jürgen Klinsmann, þjálfari bandaríska landsliðsins í knattspyrnu, kvaðst vera himinlifandi með frammistöðu sinna manna gegn Portúgal á HM í gærkvöld þrátt fyrir að þeir fengju á sig jöfnunarmark, 2:2, á fimmtu mínútu í uppbótartíma.
„Þegar þú færð á þig mark á síðustu sekúndunni er það óheppni. Strákarnir okkar spiluðu einstaklega vel. Þetta gerir okkur dálítið erfiðara fyrir en við viljum vinna Þjóðverja til að tryggja okkur sæti í 16-liða úrslitum," sagði Klinsmann við Sky Sports, en hann glímir við landa sína í lokaumferð riðlakeppninnar.
Liðin eru bæði með 4 stig og standa vel að vígi en Portúgal og Gana eru með eitt stig hvort og annað þeirra gæti því komist uppfyrir tapliðið úr leik Þýskalands og Bandaríkjanna.
„Ég er dálítið svekktur yfir þessu jafntefli en við munum leggja hart að okkur til að svona lagað endurteki sig ekki," sagði Klinsmann.
Markvörðurinn Tim Howard tók undir þetta. „Við erum vonsviknir en bjartsýnir. Við héldum að við værum komnir í 16-liða úrslitin en nú erum við þar sem við stefndum að fyrir keppninaa, að fara í lokaleikinn og eiga góða möguleika á að komast áfram. Þjálfarateymið okkar lagði upp frábært leiksplan. Portúgal kom okkur ekki í mikil vandræði og við hefðum átt að koma í veg fyrir bæði mörk þeirra. Við spiluðum boltanum betur og fengum opnari færi en í fyrsta leilknum en við látum þetta jöfnunarmark ekki slá okkur út af laginu," sagði Howard.