Hollendingar áfram eftir mikla dramatík

Klaas-Jan Huntelaar skorar sigurmarkið í uppbótartíma.
Klaas-Jan Huntelaar skorar sigurmarkið í uppbótartíma. AFP

Holland tryggði sér farseðilinn í átta liða úrslit heimsmeistaramótsins í knattspyrnu eftir vægast sagt dramatískan sigur á Mexíkó, 2:1, í sextán liða úrslitunum í dag.

Bæði lið fengu sín færi í fyrri hálfleiknum en að honum loknum var staðan markalaus. Það sem stóð helst upp úr var vatnspásan, fyrsta opinbera vatnspásan á heimsmeistaramóti.

Fjörið var hins vegar meira í seinni hálfleik og strax á 48. mínútu skoraði Giovanni dos Santos fyrir Mexíkó og kom þeim yfir með mögnuðu skoti utan teigs. Hollendingar reyndu hvað þeir gátu að jafna og það tókst loks á 87. mínútu þegar Wesley Sneijder skoraði með þrumuskoti eftir hornspyrnu.

Dramatíkin náði síðan hámarki í uppbótartíma þegar Rafael Marques, fyrirliði Mexíkó, braut á Arjen Robben innan teigs og vítaspyrna dæmd. Klaas Jan Huntelaar fór á punktinn og skoraði örugglega og tryggði Hollendingum sæti í átta liða úrslitunum.

Þetta er þriðji leikurinn á mótinu þar sem Hollendingar koma til baka eftir að hafa lent undir, en það gerði Vestur-Þýskaland síðast árið 1970.

Fylgst var með gangi mála í máli og myndum í HM Í BEINNI 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert