Kostaríka tryggði sér í kvöld sæti í átta liða úrslitum heimsmeistaramótsins í knattspyrnu eftir sigur á Grikklandi í sextán liða úrslitunum eftir vítaspyrnukeppni.
Leikurinn var tíðindalítill að mestu en markalaust var að fyrri hálfleik loknum. Snemma í þeim síðari kom Bryan Ruiz Kostaríku yfir með hnitmiðuðu skoti, sem reyndist eina mark leiksins.
Oscar Duarte fékk sitt annað gula spjald á 66. mínútu hjá Kostaríka en Grikkirnir virtust ekki ætla að ná að nýta sér það. Þegar í uppbótartíma var komið þá skoraði hins vegar Socratis Papastathopoulos og tryggði framlengingu, 1:1. Þar var hins vegar ekkert skorað og því þurfti að grípa til vítaspyrnukeppni.
Þar voru leikmenn Kostaríka magnaðir og skoruðu úr öllum sínum spyrnum en Theofanis Gekas brenndi af fyrir Grikki og því fer Kostaríka áfram.
Í átta liða úrslitunum mætast Kostaríka og Holland sem lagði Mexíkó fyrr í dag, en leikurinn fer fram þann 5. júlí