Robben biðst afsökunar á dýfu

Hollendingurinn Arjen Robben hefur beðist afsökunar á því að hafa látið sig detta til að reyna að krækja í vítaspyrnu í leiknum gegn Mexíkóum í sextán liða úrslitum heimsmeistarakeppninnar í knattspyrnu í gær.

Robben sagði eftir leikinn að hann hefði reynt þetta í fyrri hálfleiknum. Hann krækti síðan í vítaspyrnu í uppbótartíma leiksins og úr henni skoraði Klaas-Jan Huntelaar sigurmark Hollendinga, 2:1.

„Það var klár vítaspyrna, en um leið verð ég að biðjast afsökunar á því að hafa látið mig detta í fyrri hálfeiknum. Það hefði ég ekki átt að gera, það var ákaflega heimskulegt, en stundum reiknar maður með því að það verði sparkað í mann og svo hætta þeir við á síðustu stundu,“ sagði Robben við hollenska sjónvarpið NOS.

Arjen Robben fagnar sigrinum á Mexíkóum.
Arjen Robben fagnar sigrinum á Mexíkóum. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert