Þjóðverjar höfðu úthaldið í framlengingu

Þýskaland er komið áfram í átta liða úrslit heimsmeistaramótsins í Brasilíu eftir 2:1 sigur á Alsír eftir framlengingu í sextán liða úrslitunum í kvöld.

Fyrri hálfleikurinn var fjörugur þar sem bæði lið fengu ágæt færi. Markverðirnir voru hins vegar í aðahlutverki og björguðu báðir vel, þeir Rais M'Bolhi hjá Alsír og Manuel Neuer hjá Þýskalandi. Ef eitthvað er voru leikmenn Alsír líklegri, en staðan var markalaus að fyrri hálfleik loknum.

Svipað var uppi á teningnum í síðari hálfleik. Bæði lið fengu sín færi en markverðirnir komu í veg fyrir að liðunum tækist að skora. Það var því enn markalaust að loknum venjulegum leiktíma og því þurfti að framlengja.

Eftir einungis tveggja mínútna leik í framlengingu náði Andre Schürrle að brjóta ísinn fyrri Þjóðverja. Leikmenn Alsír reyndu hvað þeir gátu að jafna metin en ekki gekk það og Mesut Özil virtist vera að innsigla sigur Þjóðverja í blálokin. Abdelmoumene Djabou minnkaði hins vegar muninn í uppbótartíma framlengingar og þar við sat, 2:1 sigur Þýskalands staðreynd.

Þjóðverjar mæta því Frakklandi í átta liða úrslitunum en sá leikur fer fram á föstudaginn kemur.

Andre Schüerrle braut ísinn fyrir Þjóðverja.
Andre Schüerrle braut ísinn fyrir Þjóðverja. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert