Þjóðverjar rótburstuðu Brasilíumenn 7:1 í undanúrslitunum heimsmeistaramótsins í knattspyrnu. Þeir munu því spila til úrslita í keppninni en á morgun kemur í ljós hvort það verður Holland eða Argentína sem þeir mæta. Ljóst er að um sögulegan sigur er að ræða
Leikurinn var algjörlega ótrúlegur og mörk Þjóðverja komu á færibandi. Fyrsta markið kom eftir 11. mínútna leik en þá sparkaði framherjinn Thomas Müller knettinum í netið eftir hornspyrnu Bastian Schweinsteiger og sofandahátt í vörn Brasilíumanna. Miroslav Klose skoraði annað mark Þjóðverja og skráði sig þar með í sögubækurnar en hann er nú markahæsti leikmaður á lokakeppni HM með sextán mörk.
Annað og þriðja mark Þjóðverja skoraði miðjumaðurinn Toni Kroos eftir sundurspil þeirra þýsku í gegnum hripleka brasilíska vörn sem saknaði óskaplega fyrirliðans og varnarmannsins sterkaThiago Silva. Fimmta markið skoraði miðjumaðurinn sterki Sami Khedira, og enn var brasilíska vörnin hvergi sjáanleg. Í síðari hálfleik var komið að Andre Schürrle en hann skoraði sjötta og sjöunda mark Þjóðverja. Seinna mark hans var einkar glæsilegt, þrumuskot í slá og inn og Julio Cesar í marki Brasilíu kom engum vörnum við.
Brasilíumenn klóruðu í bakkann með marki frá Oscar í uppbótartíma en lengra komust þeir ekki. Þeir höfðu líklega ekki getað látið sér detta í hug að þetta yrðu örlög þeirra á þessu heimsmeistaramóti