Þjóðverjar urðu í kvöld heimsmeistarar karla í knattspyrnu í fjórða sinn þegar Þýskaland vann 1:0-sigur á Argentínu eftir framlengdan leik. Mario Götze skoraði sigurmark leiksins á 113. mínútu. Markið var afar fallegt. Hann tók á móti fyrirgjöf frá André Schürrle á brjóstkassann og skoraði svo með fínu skoti í fjærhornið með vinstri fæti.
Götze hafði komið inn á sem varamaður fyrir Miroslav Klose, markahæsta leikmann HM frá upphafi, þegar Klose fékk heiðursskiptingu á lokamínútum venjulegs leiktíma.
Þýskaland varð þar með heimsmeistari í fyrsta sinn frá árinu 1990, en Vestur-Þýskaland vann HM einnig árin 1954 og 1974.
Fylgst var með leiknum í máli og myndum hér á mbl.is í kvöld undir HM Í BEINNI.