Það vakti talsverða athygli að Jón Guðni Fjóluson var ekki með liði sínu Norrköping í sænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag þegar liðið gerði 3:3 jafntefli við AIK. Varnarmaðurinn öflugi var valinn í 35 manna æfingahóp landsliðsins fyrir HM en eins og frægt er orðið tilkynnti Heimir Hallgrímsson 23 manna lokahóp sinn, sem fer til Rússlands, 11. maí síðastliðinn.
Jón Guðni er hins vegar til taks, ásamt ellefu öðrum leikmönnum, fari svo að einhver í 23 manna hópnum meiðist. Reglur FIFA, Alþjóðaknattspyrnusambandsins, kveða á um að þeir leikmenn, sem voru valdir í æfingahópa sinna þjóða megi ekki spila, dagana 21.-27. maí, þar sem þeir eigi inni hvíld fyrir heimsmeistaramótið.
Stærstu deildir Evrópu eru komnar í sumarfrí en sænska deildin hófst í byrjun apríl. Hún fer hins vegar í frí til 7. júlí á meðan HM stendur yfir en Arnór Smárason, leikmaður Hammarby, og Elías Már Ómarsson, sóknarmaður Gautaborgar, mega heldur ekki spila með liðum sínum á morgun, þegar síðasta umferðin í Svíþjóð, fyrir HM, klárast.
„Ég hafði ekki hugmynd um að hann mætti ekki spila þennan leik en ég komst að þessu í dag,“ sagði Poya Asbaghi, þjálfari Gautaborgar, í samtali við Expressen. „Þetta eru sérstakar reglur og þetta er slæmt fyrir okkur. Elías Már hefði nýst okkur vel í þessum leik gegn Sundsvall,“ sagði þjálfarinn pirraður að lokum.