Fyrsta heimatapið síðan 2013

Íslenska karlalandsliðið í fótbolta varð að sætta sig við 3:2-tap á móti Norðmönnum í næstsíðasta leik sínum í undirbúningi fyrir lokamót HM sem hefst síðar í þessum mánuði. Ísland komst í 2:1 í síðari hálfleik en Norðmenn skoruðu tvö mörk á fimm mínútna kafla og tryggðu sér sigur. 

Norðmennirnir byrjuðu betur og komst íslenska liðið lítið í takt við leikinn á fyrstu mínútunum. Norska liðið komst svo yfir á 15. mínútu. Björn Johnsen fékk þá boltann innan teigs, sótti að Ragnari Sigurðssyni og náði fínu skoti sem Frederik Schram náði ekki að verja í markinu.

Íslenska liðið brást vel við markinu og komst meira inn í leikinn. Á 29. mínútu lék Rúrik Gíslason á Jonas Svensson sem braut á honum innan teigs. Alfreð Finnbogason fór á vítapunktinn og skoraði af öryggi framhjá Rune Jarstein.

Eftir jöfnunarmarkið róaðist leikurinn nokkuð og hvorugt lið fékk gott færi til að komast yfir og var staðan því 1:1 er flautað var til hálfleiks.  

Seinni hálfleikurinn var fjörlegur og skoraði varamaðurinn Gylfi Þór Sigurðsson gott mark á 70. mínútu og kom íslenska liðinu yfir, 2:1. Hann hafði komið inná sjö mínútum áður í fyrsta leiknum eftir að hann meiddist í leik með Everton í mars. Eftir langa íslenska sókn átti Birkir Bjarnason skot sem var varið en Gylfi var fljótur að átta sig og skoraði með snyrtilegri vippu yfir Jarstein úr þröngu færi. 

Í kjölfar marksins komu Joshua King og Alexander Sörloth inn á sem varamenn hjá norska liðinu og það átti eftir að breyta miklu. King jafnaði leikinn á 80. mínútu eftir skelfileg mistök hjá Frederik í marki Íslands. Hann reyndi þá að leika á King eftir að hafa fengið erfiða sendingu til baka frá Kára Árnasyni, en framherjinn vann boltann af honum og skoraði í autt markið. 

Fimm mínútum síðar lagði King boltann á Sörloth og sá síðarnefndi skoraði með hnitmiðuðu skoti í bláhornið og Noregur varð fyrsta þjóðin síðan árið 2013 til að vinna útisigur á Laugardalsvelli. Íslenska liðið hafði leikið 16 leiki í röð á vellinum án þess að tapa (13 sigrar og 3 jafntefli) og unnið sex þá síðustu.

Ísland 2:3 Noregur opna loka
90. mín. Håvard Nordtveit (Noregur) á skot framhjá Skot á miðjum vallarhelmingi Íslands. Hátt yfir.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert