Aron Einar Gunnarsson, landsliðsfyrirliði í knattspyrnu, hefur verið á góðum batavegi eftir hnémeiðsli sín en hann tekur þó ekki þátt í fyrstu æfingu liðsins eftir komuna til Rússlands.
Liðið æfir þessa stundina fyrir framan hátt í 1.000 áhorfendur en hvorki Aron, Birkir Bjarnason né Alfreð Finnbogason eru með í liðsæfingunni. Alfreð skokkar með Sebastian Boxleitner, styrktarþjálfara landsliðsins, og Birkir liðkar sig til á hliðarlínunni undir handleiðslu Friðriks Ellerts Jónssonar sjúkraþjálfara, eftir langan ferðadag í gær.
Birkir Már Sævarsson, sem var tæpur vegna meiðsla og lék því ekki gegn Gana í vináttulandsleik síðasta fimmtudag, er hins vegar með á æfingunni sem og Hannes Þór Halldórsson markvörður sem glímt hefur við smávægileg nárameiðsli en lék gegn Gana.