Ekki svara Ronaldo á morgun

Lionel Messi.
Lionel Messi. AFP

Cristiano Ronaldo og Lionel Messi, tveir bestu fótboltamenn heims, hafa oft svarað hvor öðrum úti á vellinum og hafa skipst á að hampa titlinum besti knattspyrnumaður heims undanfarin ár.

Ronaldo stimplaði sig inn á HM í kvöld með glæsibrag en hann skoraði öll þrjú mörk Portúgala í mögnuðum leik á móti Spánverjum í í slag Íberíuskagaþjóðanna sem háður var á Fisht Stadium í Sochi.

Ronaldo jafnaði markaskor sitt í úrslitakeppni HM en fyrir leikinn í kvöld hafði hann skorað þrjú mörk í þremur keppnum á HM. Strax eftir leikinn er hann orðinn efstur hjá veðbönkum að enda sem markakóngur HM.

Cristiano Ronaldo skoraði þrennu í kvöld.
Cristiano Ronaldo skoraði þrennu í kvöld. AFP

Fyrir okkur Íslendinga þá vonum við að Messi fari ekkert að svara Ronaldo strax á morgun en þá mætir hann Íslendingum í fyrsta leiknum í D-riðli heimsmeistaramótsins á Spartak vellinum í Moskvu.

Þetta verður í fyrsta sinn sem Argentína og Ísland leiða saman hesta sína á fótboltavellinum. Leikurinn hefst klukkan 13 að íslenskum tíma og verður í sjálfsögðu í beinni textalýsingu hér á mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert