Þegar ég beið í göngunum niðri á Spartak vellinum í Moskvu eftir viðtölum við leikmenn Íslands eftir leikinn gegn Argentínu á HM vatt sér að mér roskinn maður sem byrjaði á því að óska mér til hamingju með frábær úrslit íslenska liðsins.
„Þetta er fjandi gott lið sem þið eigið og þessi úrslit hjá íslenska liðinu voru stórkostleg. Þetta er svo góð liðsheild og leikmaðurinn númer 10 (Gylfi Þór Sigurðsson) er virkilega góður leikmaður sem og Finnbogason. Ísland verðskuldaði úrslitin og það verður gaman að fylgjast með því,“ sagði Hartmund Scherzer íþróttablaðamaður hjá þýska blaðinu Frankfurter Neue Presse en hann heldur á næstu dögum upp á 80 ára afmæli sitt.
Eftir stutt spjall við Scherzer komst ég að því að hann er mættur á sitt 15. heimsmeistaramót sem íþróttablaðamaður og á heimsmet hvað það varðar en enginn hefur starfað á fleiri heimsmeistaramótum í knattspyrnu sem íþróttablaðamaður. Undirritaður er hins vegar mættur á sitt fyrsta heimsmeistaramót eins og íslenska landsliðið!
Spurður hvað sé besta heimsmeistaramótið sem hann hefur fylgst með sagði Scherzer;
„Það er engin spurning í mínum huga. HM í Mexíkó 1970 er sú skemmtilegasta og besta.“
Brasilíumenn urðu heimsmeistarar í Mexíkó en þeir lögðu Ítali 4:1 í úrslitaleik