Jorge Sampaoli landsliðsþjálfari Argentínu í knattspyrnu varði landsliðsfyrirliðann Lionel Messi á fréttamannafundi í dag og sagði að lið sitt verði að vinna að sigur gegn Króötum annað kvöld.
Argentínumenn, sem töpuðu úrslitaleiknum um heimsmeistaratitilinn fyrir Þjóðverjum fyrir fjórum árum, voru harðlega gagnrýndir fyrir frammistöðuna í 1:1 jafnteflinu gegn Íslendingum og ekki síst Messi sem náði ekki að skora úr vítaspyrnu. Hannes Þór Halldórsson sá við honum og varði glæsilega.
„Við þurfum að komast á næsta stig. Það er það sem við komum hingað til að gera. Við viljum ekki fara í síðasta leikin án þess að hafa leyst það,“ sagði Sampaoli á fréttamannafundi í dag.
Spurður út í Messi sagði Sampaoli að byrjunin á móti Íslendingum hafi valdið vonbrigðum en það hafi ekki verið Messi að kenna þótt hann hafi klúðrað vítaspyrnu í leiknum.
„Við vorum í svolitlu uppnámi að hafa ekki unnið leikinn en ég held að Messi ætti ekki að axla ábyrgðina. Þegar Argentínu gengur vel þá fá allir hrós en þegar Argentína tapar þá er það alltaf Messi að kenna. Mér finnst það ósanngjarnt,“ sagði Sampaoli sem er líklegur til að gera þó nokkrar breytingar á byrjunarliði sínu frá leiknum á móti Íslendingum.