Möguleikar Íslands á að komast í sextán liða úrslit heimsmeistarakeppni karla í knattspyrnu minnkuðu verulega í dag þegar liðið beið lægri hlut, 0:2, fyrir Nígeríu í annarri umferð D-riðils í Volgograd.
Ahmed Musa skoraði bæði mörkin í seinni hálfleik eftir að Ísland hafði verið sterkari aðilinn í þeim fyrri. Nígeríumenn voru hins vegar mun sterkari eftir hlé og áttu sigurinn fyllilega skilinn.
Króatía er með 6 stig, Nígería 3, Ísland 1 og Argentína 1 stig fyrir lokaumferðina. Þar verður Ísland að vinna Króatíu og treysta á hagstæð úrslit í viðureign Argentínu og Nígeríu. Nígería er nú í bestu stöðunni með að komast upp úr riðlinum með Króötum.
Í fyrsta skipti í lokakeppni stórmóts náði íslenska liðið ekki að skora mark en fékk þó til þess gullið tækifæri seint í leiknum. Gylfi Þór Sigurðsson tók vítaspyrnu á 82. mínútu eftir að brotið var á Alfreð Finnbogasyni en skaut yfir nígeríska markið.
Ísland byrjaði leikinn betur og strax á 3. mínútu átti Gylfi Þór Sigurðsson hörkuskot úr aukaspyrnu sem Francis Uzoho, hinn 19 ára gamli markvörður Nígeríu, varði í horn.
Gylfi fékk úrvalsfæri á 6. mínútu eftir laglega sókn, skaut úr miðjum vítaboganum en ekki nógu utarlega og Uzoho varði örugglega.
Eftir þetta gerðist sáralítið upp við mörkin lengi vel. Nígería komst betur inn í leikinn og náði góðum pressukafla sem íslenska liðið stóð af sér án þess að marktækifæri sköpuðust.
Íslenska liðið var aftur kraftmeira þegar leið á hálfleikinn. Birkir Bjarnason átti gott skot rétt yfir markið á 34. mínútu og í tvígang eftir það sköpuðu fyrirgjafir Birkis Más Sævarssonar mikinn usla í vítateig Nígeríu. Í seinna skiptið fór boltinn af Alfreð Finnbogasyni í markteignum og rétt fram hjá stönginni.
Í uppbótartímanum átti Jón Daði Böðvarsson skalla rétt fram hjá markinu eftir hornspyrnu Gylfa frá vinstri. Staðan 0:0 eftir fyrri hálfleik þar sem Ísland átti fimm markskot en Nígería ekkert.
Nígería hóf seinni hálfleikinn af krafti. Hannes varði skot frá Ahmed Musa eftir aðeins 20 sekúndur.
Á 49. mínútu kom svo höggið. Victor Moses geystist upp hægra megin og sendi inn í vítateiginn, Musa náði boltanum og þrumaði honum í netið frá vítapunkti, 0:1.
Ragnar Sigurðsson fékk höfuðhögg í leiðinni frá Musa og leikurinn var stopp í 4 mínútur á meðan gert var að því. Ragnar náði að halda áfram en var skipt af velli á 64. mínútu.
Wilfred Ndidi átti hörkuskot af 30 m færi á 57. mínútu þar sem Hannes Þór Halldórsson þurfti að grípa til sparihanskanna og sló boltann yfir þverslána.
Rúrik Gíslason átti sprett í átt að vítateig Nígeríu á 68. mínútu og átti skot rétt yfir markið.
Leon Balogun átti stórhættulegan skalla að marki Íslands eftir hornspyrnu á 72. mínútu en rétt yfir þverslána.
Annað nígerískt mark lá í loftinu. Musa átti þrumuskot í þverslá á 74. mínútu og Moses skaut yfir í kjölfarið. Í næstu sókn fékk Musa langa sendingu fram vinstri kantinn, stakk sér inn fyrir Kára, lék fram hjá Hannesi og skoraði, 0:2.
En Ísland fékk sitt tækifæri til að laga stöðuna. Á 81. mínútu endaði góð sókn Íslands með því að Alfreð Finnbogason var felldur í vítateignum. Dómarinn dæmdi ekkert en að lokum úrskurðaði hann að atvikið yrði skoðað. Niðurstaðan – vítaspyrna!
Gylfi Þór Sigurðsson tók vítaspyrnuna, en skaut yfir nígeríska markið!
Alfreð Finnbogason komst í færi vinstra megin í vítateignum eftir sendingu Rúriks en markvörðurinn varði skot hans. Sverrir Ingi Ingason átti skalla yfir markið eftir fyrirgjöf Rúriks.
Í sex mínútna uppbótartíma gerðist fátt og nígerískum sigri var ekki ógnað.