Forráðamenn argentínska landsliðsins í knattspyrnu hafa neitað þeim fréttum að leikmenn landsliðsins vilji að þjálfarinn Jorge Sampaoli verði rekinn fyrir síðasta leik þeirra í riðlakeppninni á HM næsta þriðjudag en þá mæta þeir Nígeríumönnum, andstæðingum Íslendinga í dag.
Argentínskir fjölmiðlar greindu frá því að kastast hafi í kekki á milli leikmanna og þjálfarateymis Argentínu og að Jorge Burruchaga, sem varð heimsmeistari með Argentínu, myndi stýra liðinu á móti Nígeríumönnum en hann er tæknilegur ráðgjafi argentínska knattspyrnusambandsins.
„Þetta eru ósannindi,“ segir í yfirlýsingu frá knattspyrnusambandi Argentínu en argentínska þjóðin er í uppnámi vegna slakrar frammistöðu liðsins á HM. Argentína gerði 1:1 jafntefli á móti Íslandi en tapaði 3:0 fyrir Króatíu í gær.
„Allt það sem hefur verið sagt um fundi leikmanna og annað slíkt er ekki rétt,“ segir heimildarmaður úr herbúðum Argentínumanna.