Markahæsti leikmaður enska landsliðsins frá upphafi, Wayne Rooney, hefur hvatt Gareth Southgate, landsliðsþjálfara Englands, til að gefa leikmönnum sínum mikið frelsi þegar þeir mæta Kólumbíu klukkan 18:00 í dag í 16-liða úrslitum heimsmeistaramótsins í knattspyrnu.
„Þeir eru góðir. Þeir hafa mikla hæfileika. Þeir hafa verið spennandi, ungir, haft mikla orku og fengið mikið frelsi. Ég vona bara að Gareth taki það ekki frá þeim í leiknum gegn Kólumbíu. Leyfið þeim að spila. Ég held að þeir njóti þess að hafa þetta frelsi,“ sagði Rooney.
Rooney var einnig spurður út í ákvörðun Southgate um að hvíla leikmenn í síðasta leik riðlakeppninnar á móti Belgíu. England tapaði þeim leik og endaði í öðru sæti riðilsins en fékk að sama skapi „auðveldari“ mótherja á leið að úrslitaleiknum.
„Ég held að þetta hafi verið rétt ákvörðun. Úrslitin voru þau bestu fyrir England. Ég held að það hafi verið vandamál síðustu 15-20 ár að við Englendingar erum of heiðarlegir. Við viljum vinna alla leiki. Á meðan eru önnur lönd að beita klókindum til þess að komast áfram. Ég er viss um að Gareth hafi viljað halda sigurgöngunni áfram en stundum þarft þú að taka skref aftur á bak til þess að taka tvö áfram. Ég tel að þetta hafi verið rétt ákvörðun.“