Luka Modric, fyrirliði króatíska landsliðsins í knattspyrnu, skaut á bresku pressuna eftir sigur sinna manna gegn Englendingum í undanúrslitum á HM í knattspyrnu í gærkvöld.
„Enskir blaðamenn og lýsendur í sjónvarpi vanmátu okkur og það voru stór mistök. Um allt sem við lásum og sáum frá þeim sögðum við; allt í lagi. Við skulum sýna hverjir verða þreyttir.
Þeir hefðu mátt sýna meiri auðmýkt og bera meiri virðingu fyrir andstæðingunum. Við sýndum það að við vorum ekkert þreyttir. Við réðum leiknum andlega og líkamlega og við hefðum átt að gera út um leikinn áður en hann fór í framlengingu,“ sagði Modric, sem enn og aftur sýndi snilli sína á fótboltavellinum.
„Þetta er magnað afrek hjá okkur og draumurinn hefur ræst. Loksins erum við komnir í úrslitaleikinn. Þetta er besti árangur í sögu króatískra íþrótta og við eigum að vera stolt,“ sagði Modric og þrátt fyrir að hafa unnið Meistaradeild Evrópu fjórum sinnum með Real Madrid þá telur hann að þetta afrek með Króatíu fari langt með að slá því við.